Örviðtal: Hildur Arna Håkansson:
Næsti kennari í örviðtala röðinni á þessari síðu er Hildur Arna Håkansson, kennari í Skarðshlíðarskóla. Ég hef fylgst með henni bæði á Twitter og Menntaspjalli þar sem hún hefur tekið virkan þátt, og þar hefur hún m.a deilt myndum af því hvernig hún notar BreakoutEDU og áhugasviðsverkefni í sinni kennslu ásamt því að leggja áherslu á sköpun.
Markmiðið með þessum viðtölum er að kynnast fjölbreyttum og öflugum kennurum og þeirra kennslu, fá þeirra sýn og upplifun af árinu sem leið (2021) og jafnframt heyra um vonir þeirra og væntingar til ársins 2022 í sínu starfi.
Kynning á kennara, kennsluháttum og kennslufræðilegri sýn.
„Hildur Arna Håkansson, náttúrufræði og Kraum kennari (samþætt náttúrufræði, samfélagsfræði og upplýsingatækni) í Skarðshlíðarskóla, kenni 8. - 10. bekk. Það sem einkennir kennsluna mína er nemendamiðað nám og elska skapandi verkefni þar sem nemendur nýta styrkleika sína. Held sérstaklega upp á John Dewey sem sagði að við lærum af því að gera hlutina og því er ég dugleg að nýta tilraunir og ferli vísinda í kennslu.“
1. Hverju ert þú stolt af í þinni kennslu á árinu 2021?
„Ég er stolt af áhugasviðsverkefnunum sem ég geri af og til með nemendum, stundum með ákveðnu þema og stundum mjög opin. Það er gaman að sjá nemendur finna sjálfan sig í gegnum þessi verkefni og leyfa áhugasviði sínu að blómstra.“
2. Hvað fannst þér mesta áskorunin/mestu áskoranirnar á 2021 í þínu starfi?
„Mesta áskorunin hefur verið að halda í samþættingu námsgreina en eins og í öllu þá er gott teymi gulli betra. Það er mikilvægt að muna að allir geta eitthvað en enginn getur allt. “
3. Hverju langar þig að forgangsraða og/eða viðhalda í þinni kennslu á árinu 2022?
„Ég vil halda í sköpunina og fjölbreytt skil. Það hafa fæðst ógrynni listaverka hvort sem er í Minecraft, á striga eða úr trölladeigi og ég er sannfærð um að þetta eru verkefni sem nemendur munu muna eftir í framtíðinni auk þess sem nemendur fara oft mun dýpra í efnið. Ég stefni líka á að staldra meira við og njóta þess sem ég er að gera í kennslunni t.d. að skrá hjá mér það sem hefur gengið vel eftir daginn. Gott að grípa í slíka gullmola þegar meira krefjandi dagar dúkka upp. “
4. Hvað er það sem mótiverar þig, drífur þig áfram eða veitir þér innblástur í þína kennslu og þú myndir vilja deila með öðrum kennurum inn í 2022?
„Samtal við nemendur mína. Þeir hafa svo ótal margar hugmyndir um allt og ekkert. Ég veit fátt skemmtilegra en að grúska með þeim og leyfa þeim að hafa áhrif á hvað við förum í og hvernig. Svo er rosalega mikilvægt að eiga góðan teymisfélaga sem heldur manni á jörðunni því ég á mjög auðvelt með að vera komin langt upp fyrir skýin.“