👋

Ég heiti Helgi Reyr og er unglingastigs kennari í Reykjavík. Þetta blogg er helgað kennslufræði, skólaþróun og skólamálum, og sem vettvangur fyrir kennsluefni og fleira sem getur nýst öðrum í kennslu. Allt efni inni á síðunni sem ég hef búið til er öðrum kennurum frjálst til afnota.

Í júní 2019 útskrifaðist ég með M.Ed gráðu frá Ontario Institute for Studies in Education (OISE) sem er sú deild innan Háskólans í Toronto sem snýr að menntunar- og kennslufræðum, og rannsóknum á því sviði. Í náminu beindist áhugi minn sérstaklega að menntun til borgaravitundar (e. Citizenship education) – þ.e.a.s því ferli hvernig skólar undirbúa unga einstaklinga til virkrar lýðræðislegrar þátttöku – og þeim mörgu flóknu spurningum sem þessu ferli fylgir. Námið leiddi til þess að sumarið 2018 vann ég að lítilli rannsókn í samstarfi við dr. Kristínu Jónsdóttur fyrir Rannís um stöðu og stefnumótun menntunar til hnattrænnar borgaravitundar hér á landi.

Heimspeki og hugmyndafræði krítískrar kennslufræði (e. Critical pedagogy) er minn kompás í allri minni kennslu en sú stefna leggur áherslu á að félagslegt réttlæti og lýðræði eigi að vera markmið menntunar – en einnig að menntun er hápólitískt fyrirbæri. Því mótast öll mín nálgun á kennslu, allt frá kennsluháttum til námsmats og inntaks kennslunnar, að því að auka þátttöku nemenda og vitund þeirra á samfélaginu sem þau tilheyra og skoða það með gagnrýnum augum svo þau megi verða þátttakendur sem beri hag samborgara sinna fyrir brjósti.

Í starfi mínu sem kennari legg ég ríka áherslu á að flétta saman sköpun og upplýsingatækni í þeirri viðleitni að skapa nútímalegt og skemmtilegt nám fyrir nemendur. Það geri ég einnig til að gefa nemendum mínum fjölbreyttar leiðir til þess að læra og tjá það sem þau hafa lært, út frá sínum forsendum og styrkleikum.