🧹 Skýrt og skipulagt Classroom

Sem hluti af innleiðingu rafrænna kennsluhátta í grunnskólum er Google Classroom að verða það námsumhverfi sem algengt er að kennarar og nemendur nota. Kerfið er í stuttu máli rafrænt svæði sem býður upp á að kennarar geti sett inn verkefni og námsefni, farið yfir og gefið endurgjöf, og nemendur geta jafnframt fengið verkefni og námsefni, unnið í þeim og skilað inn, fengið endurgjöf og séð skilaboð frá kennurum - svo fátt eitt sé nefnt. Sjálfur hef ég notað kerfið nánast frá því ég byrjaði að kenna og á erfitt með að ímyndað mér hvernig það væri að kenna án þess. Ég hef farið í gegnum alls konar pælingar með Classroom, velt fyrir mér kostum og göllum þess, og fylgst með því breytast og verða betra. En aðallega með því að nota það á hverjum degi hef fikrað mig áfram með að finna skipulag og ferla sem spara tíma og gera námið skýrara fyrir nemendum. Því langar mig í þessari færslu að deila nokkrum ráðum sem mögulega geta gagnast öðrum sem vilja hafa skýrt og skipulagt Classroom (og mögulega líka spara tíma).


Leiðarvísir fyrir vel uppsett Classroom

Notaðu viðfangsefni (topics)

Viðfangsefni/fyrirsagnir er efst á þessum lista einfaldlega vegna þess að þetta er algjör game changer! Topics getur þú sem dæmi notað ef þú/teymið þitt er að kenna verkefni, lotu eða viðfangsefni yfir lengri tíma. Undir hvert topic raðast svo verkefnin, námsefnið, skilahólfin, kennsluáætlun og fleira sem á við í því viðfangsefni. Sömuleiðis er hægt að skrifa vikuna/tímabilið sem nemendur eru í hverju sinni, t.d „Vikan 27. september - 1. október“ og raða undir verkefnum og gögnum.

Settu tjákn í titla (emojis)

Eflaust finnst einhverjum þetta vera tilgangslaust, tímasóun og hafa engan sérstakan kennslufræðilegan tilgang. Ég hinsvegar held að ef maður notar tjáknin rétt þá geta þau haft mjög mikið gagn (plús það að Classroom-ið verður mikið líflegra og krakkarnir nota sjálf tjáknin mikið). Ég nota lyndistáknin sem einskonar sjónræn merki (e. visual cue), sem gefa til kynna hvers konar verkefni er um að ræða (skapandi, ritun, lestur, hlustun, áhorf, spurning og þar fram eftir götunum) eða hvort þetta sé skilahólf, lesefni, myndefni, kennsluáætlun o.sfrv.  Sömuleiðs set ég gjarnan lýsandi tjákn fyrir framan nöfnin á viðfangsefnunum til að gera þau enn skýrari.

Á Apple tölvum færðu upp emoji lyklaborðið með því að ýta á globe takkann 🌐 + E

Á Windows tölvum færðu upp emoji lyklaborðið með því að ýta á Windows takkann + . (punktur).


Kennsluáætlun og mikilvæg gögn efst

Ég hef það sem venju að setja kennsluáætlun fagsins efst á síðunni alltaf (á undan öllum viðfangsefnunum). Þannig er hún alltaf sýnileg nemendum. Sömuleiðis hef ég sett hlekk á skjal með öllum hæfniviðmiðum í íslensku fyrir 8.-10.bekk. Aðrir hlutir sem nemendur þurfa að nota aftur og aftur, eins og vefir, orðabækur eða verkfærakistan fyrir skapandi verkefnaskil er einnig efst.

Þemað/lotan/vikan sem nemendur eru að vinna í næst efst

Þetta atriði gæti mögulega líka verið efst á þessum lista. Það er ofur einfalt að smella á og draga annað hvort viðfangsefnin (topics) eða verkefnin og raða þeim. Þannig er það sem nemendur eru að vinna í hverju sinni, alltaf það fyrsta sem þeir sjá. Það spara líka gríðarlegan tíma að þurfa ekki að leita af gögnum eða svara sömu spurningunni „hvar finn ég verkefnið á Classroom?“. Smátt og smátt færist þetta inn í vöðvaminnið bæði hjá manni sjálfum og nemendum að nýjasta viðfangsefnið er alltaf fremst/efst. Sömuleiðis er ótrúlegur tímasparnaður í því að raða gögnunum undir hverju topic skipulega, t.d hafa kennsluáætlunina efst.

Stutt og skýr heiti á verkefnum

Þetta hef ég reynt að venja mig á að gera alltaf og er ástæðan einfaldlega til að flækja ekki hlutina. Kennarinn setur inn alls konar færslur og það er auðvelt að skrifa heiti sem gefa ekki skýrt til kynna hvar nemandinn á að byrja. Þá skiptir máli að heitin séu stutt og skýr. Einföld dæmi eru til dæmis:

  • Verkefni 1: Almenn brot, Verkefni 2: Flatarmál

  • #1 - nafnorð, #2 - sagnorð

  • Vika 1 - Hvað eru auglýsingar?

  • Opgave 1, opgave 2, opgave 3.

Ef það eru ekki mörg verkefni heldur bara eitt stórt verkefni má sömuleiðis skrifa „📥Skilahólf fyrir lokaverkefni“.


Uppkast (e. drafts).

Reglulega byrja ég á að setja inn verkefni og byrja aðeins á þeim, en bíð svo með að senda þau svo nemendur sjái. Þá er það oftast vegna þess að ég ætla að halda áfram að vinna í þeim síðar. Þá einfaldlega loka ég verkefninu og það vistast sjálfkrafa en verður þá grátt á litinn.

Tímasettar færslur (e. scheduled posts).

Þessi fídus er oft mjög gagnlegur þegar kennari er með eitthvað tilbúið en vill ekki senda það út strax. Þá er mjög gagnlegt að tímasetja færsluna og Classroom sér um að senda færsluna/færslurnar sjálfkrafa út á þeim tíma (til dæmis ef kennari er tilbúinn með verkefni á föstudegi og vill að það fari út til nemenda á mánudagsmorgni - lang best að fara áhyggjulaus inn í helgina). Til þess að gera þetta ýtir þú á örina hægra megin við Assign og velur Schedule. Klárlega tímasparnaður, vinnusparnaður og almennt lifehack!

Afrit fyrir hvern og einn nemanda (e. make a copy for each student).

Oft bý ég til stutt verkefni sem ég vill að nemendur vinni í og skili mér til baka. Þá er make a copy for each student aðgerðin sem býr til afrit af skjalinu fyrir hvern og einn nemanda. Nú í ár gerðum við rafræna áformsbók fyrir nemendur sem hver og einn átti að fá til að halda utan um verkefnin sín. Þá bjuggum við til eina áformsbók og dreifðum henni til hvers og eins. Síðan getur kennarinn auðvitað litið inn í verkefni hvers og eins, gefið athugasemdir, fyllt inn í og fylgst með.

Reuse post.

Þessi aðgerð er fyrst og fremst mikill tímasparnaður og vinnusparnaður. Segjum sem svo að þú viljir nota verkefni sem þú hefur sett inn á Classroom áður í öðrum hóp. Með því að smella á Create efst undir Classwork finnur þú Reuse Post. Þá færð þú val um Classroom hópa og verkefni sem þú hefur áður notað. Veldu það verkefni sem þú vilt nota aftur og öll skjöl fylgja með.

Sama verkefni í marga bekki.

Aftur tímasparnaður og vinnusparnaður. Áður en þú birtir verkefni getur þú valið hvaða hópar eiga að fá verkefnið. Þetta er mjög gagnlegt ef þú ert að fara að kenna sama viðfangsefnið þvert á árganga eða hópa.

Previous
Previous

Örviðtal: Hildur Arna Håkansson:

Next
Next

Örviðtal: Björn Kristjánsson