Verkfærakista fyrir skapandi verkefnaskil

Frá því að ég byrjaði að kenna hef ég alltaf verið mjög meðvitaður um mikilvægi þess að nemendur fái að sýna fram á það sem þau hafa lært með fjölbreyttum leiðum. Ekki bara gerir það verkefnaflóruna litríkari og skemmtilegri heldur líka gefur það nemendum val til þess að nýta sína styrkleika og sinn áhuga til þess að sýna fram á það sem þau kunna.

Í Norðlingaskóla, þar sem ég kenni, fær hver og einn nemandi í unglingadeild iPad sem námstæki. Þó svo að iPadinn sé í hugum margra aðallega afþreyingartæki þá hef ég reynt að leggja áherslu á að tækin bjóða upp á ótal möguleika til að vera skapandi.

Björgvin Ívar, kennari í Langholtsskóla, líkti á einum fyrirlestri sínum iPadinum við Leatherman vasahníf, sem mér finnst mjög góð viðlíking. Í þessu eina tæki eru fjölmörg ólík öpp sem hafa mismunandi eiginleika og við getum notað til þess að framkvæma ólíka hluti.

Þegar ég lagði inn verkefni lagði ég mig fram um að hvetja nemendur til þess að vera skapandi í sínum skilum. Samt fékk ég yfirleitt frekar einsleit verkefni. Það sem var auðvitað augljóst, en ég kveikti ekki á perunni strax, er að það þarf að sýna manni hvaða valmöguleikar eru í boði. Við þurfum að fá innblástur og hugmyndir sem við svo byggjum ofan á til þess að geta skapað sjálf því slíkt gerist ekki í tómarúmi.

Það voru þessi tvö atriði sem ég nefni hér að ofan, þ.e þetta fjölbreytta notagildi iPadsins til þess að skapa og skilningurinn á því að það þarf að sýna okkur hlutina áður en það sé ætlast til að við gerum þá, sem leiddu mig til þess að búa til það sem ég kýs að kalla verkfærakista fyrir skapandi verkefnaskil. Mig langaði til þess að búa til einn stað þar sem hægt væri að fá hugmyndir um hvernig væri hægt að útfæra verkefni á skapandi, skemmtilegan og frumlegan hátt.

Previous
Previous

Orðakort