Orðabingó

Fag: Íslenska, samfélagsfræði, náttúrufræði.

Aldur: Verkefnið var búið til fyrir nemendur í 8.bekk og orðin/hugtökin valin út frá þeim hóp sem ég var að kenna. Bingó má hins vegar fara í með hverjum sem er! Því þarf bara að aðlaga orðin, hugtökin og orðskýringarnar að þroska og getu hvers hóps.

💡 Hugmyndin og örlítið um verkefnið

Þrátt fyrir að Covid hafi sett skólastarf flestra okkar sem vinnum í skólum þröngar skorður, þá ýtti sá tími mér mjög mikið áfram í að búa til skapandi fjarkennsluverkefni (tek það samt fram að þessi tími var mjög krefjandi!).

Eins og ég tók fram í annari færslu hér á þessari síðu, þar sem ég kynni Orðakort (smella hér til að fara á færslu), var skólinn þar sem ég kenni tvísetinn um tíma og urðum við því að færa nám nemenda að hluta til yfir í fjarnám þar sem nemendur mættu í kennslustendur í gegnum Google Meet. Ég hafði jafnframt verið mikið að pæla í hvernig væri hægt að fara í markvissa, skemmtilega og skapandi vinnu með fjölbreyttan íslenskan orðaforða.

„Ég var sérstaklega mikið búinn að hugsa um það hversu mikilvægt það er að örva orðaforða og hvernig ein leið til að gera það væri með því að sýna nemendum mikið af orðum og vinna mjög meðvitað með þau.“

Innan þess ramma sem við vorum bundinn af vegna Covid og hugmyndarinnar sem ég hafði að vera með orðaforðaverkefni, þá varð til þetta verkefni fyrir sem ég kalla Orðabingó. Mesta vinnan við að búa til þetta verkefni fór í að finna orð eða hugtök sem ég vildi fá nemendur til þess að þekkja. Ég vildi helst vinna með borgaravitund og þess vegna vann ég með orð og hugtök sem tengjast samfélagsvitund og hnattrænni vitund.

🍎Kennslustundin

Verkefnið bjó ég til alfarið í Google Docs og dreifði til nemenda í gegnum Google Classroom. Hver og einn nemandi fékk sitt eintak af gulu síðunum tveimur (make a copy for each student). Þá var eins og hver og einn fengi sitt eigið bingó spjald.

Eftir að hafa opnað kennslustundina gaf ég hópnum fyrirmæli um að byrja á að skoða spjaldið þar sem á standa 30 mismunandi orð og hugtök. Þau fengu svo að velja orð sem þeim leist á og setja tölurnar sem samsvöruðu orðunum inn í fyrsta rammann.

👍 Kosturinn við þetta verkefni er að flestir kunna fyrirfram að spila bingó. Það þarf ekki miklar útskýringar og leikurinn getur mjög fljótt hafist!

Ég byrjaði á að lesa upp orð af handahófi af græna rammanum, þ.e.a.s orðskýringarnar sem bara ég var með. Þau merktu við hjá sér og notuðu málið.is. Ef þau voru óviss settu þau spurningu inn í spjallið eða spurðu mig beint. Ég skráði sjálfur niður hjá mér hvaða orð/tölur ég las upp.

Þegar kallað var bingó bað ég viðkomandi um að deila með okkur hinum skjánum sínum og sýna bingó spjaldið sitt sem ég svo renndi augunum yfir. Það voru sumir sem voru mjög nálægt því að fá bingó og því las ég upp tvö - þrjú orð í viðbót. Að því loknu spiluðum við seinna bingó spjaldið.

🧠 Hugleiðingar

Litið til baka þá heppnaðist þetta verkefnið mjög vel. Krökkunum fannst það flestum skemmtilegt. Það sem ég sé sem styrkleika við þetta verkefni er að það geta flestir spilað bingó og flest allir kunna bingó. Ég sé fyrir mér að endurnýta þetta verkefni, og þá skipta út orðunum eða aðlaga þau. Jafnvel væri líka hægt að láta nemendur sjálfa fylla inn í þetta skjal einhvern ákveðin orðaforða sem verið er að vinna með, sem til dæmis er tengdur ákveðnu þema.


Smella hér fyrir bingóspjald.

Smella hér fyrir orðskýringarnar

Previous
Previous

🌍 5 kennslublogg til að fylgjast með

Next
Next

Orðakort