
Þá er komið að fjórða og síðasta viðtalinu í þessari röð örviðtala. Sif Sindradóttir kennari og verkefnastjóri tæknimála í Álftamýrarskóla hnýtir endann á þessa viðtalsröð. Hún er hefur haldið utan um #12dagatwitter á Twitter sem er myllumerki umræðu þar sem kennarar deila og spjalla um allt það gróskumikla starf sem á sér stað í skólum landsins – og á öllum skólastigum. Eins og fram hefur komið í viðtölunum við Björn, Hildi og Odd þá er það einmitt framtak eins og 12dagatwitter sem kennarar fá mjög mikið út úr og finnst þeir læra af.
Markmiðið með þessum viðtölum er að kynnast fjölbreyttum og öflugum kennurum og þeirra kennslu, fá þeirra sýn og upplifun af árinu sem leið (2021) og jafnframt heyra um vonir þeirra og væntingar til ársins 2022 í sínu starfi.

Sif Sindradóttir heiti ég og er grunnskólakennari í Álftamýrarskóla. Ég hef kennt á miðstigi frá upphafi en sl. haust skipti ég um gír og er verkefnastjóri í tæknimálum skólans og nýsköpun. Ég hef það hlutverk að styðja við kennara og nemendur í fjölbreyttum náms- og kennsluháttum með tækni. Það sem einkennir kennsluna mína er að hún byggir á markmiðum, fjölbreyttum kennsluháttum, samþættingu greina, vali nemenda, tækni og framþróun.
Hverju ert þú stolt af í þinni kennslu á árinu 2021?
Það sem ég er stolt af árið 2021 er samvinna mín við aðra kennara og stóru skrefin sem þeir hafa tekið. Það er svo gaman að vinna með frábæru fólki og að geta stutt við það með björgum og kennsluefni. Það gleður mig að geta peppað kennara og nemendur áfram og sjá þá blómstra.
Hvað fannst þér mesta áskorunin/mestu áskoranirnar á 2021 í þínu starfi?
Það sem var mesta áskorunin 2021 var þessi síendurtekna óvissa sem ríkti í skólastarfinu og það að hafa ekki hugmynd um hvernig vikan myndi líta út. Þetta gekk þó allt vel og augljóst að við kennarar eru jákvæð og fagleg stétt fram í fingurgóma.
Hverju langar þig að forgangsraða og/eða viðhalda í þinni kennslu á árinu 2022?
Það sem ég ætla að forgangsraða og halda áfram að vinna með árið 2022 er mest megnis tæknitengt. Um þessar mundir erum við að innleiða 1:1 tæki á unglingastigi sem opna marga nýja möguleika í fjölbreyttum kennsluháttum og einstaklingsmiðun. Það verður því ótrúlega spennandi að taka þátt í þessu með nemendum og kennurum.
Hvað er það sem mótiverar þig, drífur þig áfram eða veitir þér innblástur í þína kennslu og þú myndir vilja deila með öðrum kennurum inn í 2022?
Það sem veitir mér innblástur eru nemendurnir sjálfir, t.d. hversu úrræðagóðir og lausnamiðaðir þeir eru. Þeir kenna mér svo ótrúlega margt. Eins er ég svo heppin að vinna með og þekkja mikið af kröftugu, skapandi og fjölbreyttu skólafólki sem er tilbúið að deila hugmyndum sínum. Það að vinna saman og hjálpa hvert öðru gerir okkur öll faglegri og nemendur okkar græða á því. Eins finnst mér gott að horfa út fyrir skólasamfélagið, því þar leynast góðar pælingar, önnur viðhorf og hugmyndir sem hægt er að púsla saman og aðlaga.