loader image
Viðtal: Oddur Ingi Guðmundsson

Það er komið nokkuð síðan að ég setti inn síðustu færslu en það er einfaldlega vegna þess að það hefur verið nóg að gera. Í gær lukum við til dæmis Viku 6 sem heppnaðist ótrúlega vel. Nemendur fengu fjölbreyttar fræðslur og unnu verkefni sem fjölluðu um kynlíf og samskipti. Til að mynda talaði ég við nemendur um það hvernig kvenlíkaminn er notaður í auglýsingum og sendir yfirleitt mjög brenglaðar myndir og skilaboð til ungs fólks um líkama. Vikuna þar á undan vorum við á kafi í námsmati og helgarnar fóru því í að hlaða batteríin.

En aftur er komið að örviðtali og er þriðji í röðinni Oddur Ingi Guðmundsson, kennari í Langholtsskóla. Ég hef fylgst með því sem Oddur og samkennarar hans eru að gera í Langholtsskóla og má þar helst nefna Sprellifix, sem er mjög metnaðarfullt þemanám, og svo Notalegt námsmat, þar sem hefðbundið námsmat er brotið upp og það á sér stað í samtali við nemendur í kennslustundum. Oddur og Hjalti Halldórsson hafa sömuleiðis haldið úti hlaðvarpinu Ormstungur þar sem þeir félagar kafa ofan í íslendingasögurnar.

Markmiðið með þessum viðtölum er að kynnast fjölbreyttum og öflugum kennurum og þeirra kennslu, fá þeirra sýn og upplifun af árinu sem leið (2021) og jafnframt heyra um vonir þeirra og væntingar til ársins 2022 í sínu starfi.


Oddur Ingi Guðmundsson heiti ég. Ég kenni í unglingadeild Langholtsskóla. Í Langholtsskóla höfum við samþætt íslensku, náttúru- og samfélagsgreinar auk upplýsingatækni í eitt fag sem heitir Smiðja. Ég kenni það fag ásamt afar færum kennurum og góðum vinum. Það að starfa í teymiskennslu einkennir helst mitt starf og alla mína kennslufræði í raun. Styrkleikar teymiskennslu eru ótvíræðir, við vegum upp kosti og galla hvors annars og getum endurspeglað hugmyndir okkar um kennsluna hjá hvoru öðru.

Hverju ert þú stoltur af í þinni kennslu á árinu 2021?

Árið 2021 var afar skrýtið en í senn mjög áhugavert. Svona almennt er ég stoltastur af hversu mikinn dugnað samkennarar mínir um allt land sýndi þegar skólahald var með sem mestu takmörkunum í byrjun ársins þó svo að það byrjaði að losna um þær mjög fljótlega. Á persónulegu nótunum er ég afar stoltur af því að hafa útskrifað minn fyrsta árgang sem ég tók við þegar þau voru í 9. bekk. Við gengum í gegnum ýmislegt saman og var það tilfinningarík stund að fylgja þeim út um dyrnar á skólanum. Svo er gaman að hitta þessa nemendur á förnum vegi aftur og sjá að kannski, mögulega, náði maður að leggja inn einn eða tvo hluti sem svo fylgja þeim áfram í lífið.

Hvað fannst þér mesta áskorunin/mestu áskoranirnar á 2021 í þínu starfi?

Mesta áskorunin árið 2021 lá klárlega hjá mér. Ég, eins og eflaust fleiri kennarar, tek vinnuna of oft með mér heim og getur verið erfitt að hreinsa hugann. Flestir sem ég hef rætt við er að þetta venjist eftir fyrstu þrjú kennslu árin. Einn vitur kennari sagði til dæmis að þú værir ekki fullútskrifaður fyrr eftir þrjú ár af kennslu undir beltinu. Bætti hann svo við að maður er sennilega aldrei útskrifaður í þessu fagi – alltaf læri maður eitthvað nýtt.

Hverju langar þig að forgangsraða og/eða viðhalda í þinni kennslu á árinu 2022?

Ég vil forgangsraða svefninum mínum og hreyfingu svo ég geti sinnt kennslunni betur. Ef ég geri það þá mæti ég ferskur, tilbúinn að kenna og get sinnt þörfum nemenda. Af hverju sofum við? eftir Matthew Walker hefur haft áhrif á mig eins og eflaust marga aðra. Svo mikil áhrif að teymið mitt þvinguðu mig að henda í eitt sprellifix (þema) um heilann og taugakerfið sem má nálgast HÉR. Þau fengu alveg nóg að hlusta á rausið í mér um heilann, svefn og hreyfingu.

Hvað er það sem mótiverar þig, drífur þig áfram eða veitir þér innblástur í þína kennslu og þú myndir vilja deila með öðrum kennurum inn í 2022?

Það sem mótiverar og drífur mig eru aðrir kennarar sem eru að gera spennandi hluti í sínu starfi. Ég reyni að annað hvort að hitta þessa kennara (lítið gengið í vegna COVID) eða fylgi þeim á Twitter og myllumerkið #menntaspjall. Ég ætla að leggja áherslu á að fylgjast vel með en kannski deila minna þetta árið. Fókusinn síðasta árið var að deila og gerði í t.a.m. vinnubók um hlaðvarpsgerð sem fékk góðar viðtökur.

Núna ætla ég að halda mig aðeins í bakgrunninum og fylgjast með og fókusa á að prófa það sem aðrir eru að gera tilraunir með í minni eigin kennslu. Ég hef lengi haft þann draum að minnka verulega samfélagsmiðlanotkun mína og eyða tímanum í viturlegri hluti eins og að lesa bækur. Það er mjög erfitt þegar svona gott samfélag eins og #menntaspjall er til. Þegar ég segi þetta þá átta ég mig á að ég stjórna samfélagsmiðlum fyrir hlaðvarpið mitt, Ormstungur, sem styður við lestur fólks á Íslendingasögunum. Hjalti Halldórsson, samkennari minn sem er meðstjórnandi hlaðvarpsins, kann ekkert á svoleiðis. Þar verð ég að stíga upp og neyðist til að vera deila hlutum í gegnum samfélagsmiðla Ormstungna.