loader image
Viðtal: Björn Kristjánsson

Síðustu tvö ár hafa verið mjög sérstök ár fyrir skólastarf á öllum skólastigum og alla þá aðila sem koma að því; nemendur, kennara, stjórnendur og foreldra/forráðamenn. Eðli málsins samkvæmt, og í ljósi þess hve skólar gegna mikilvægu og margþættu hlutverki (sem dæmi hafa skólar hér á landi lítið sem ekkert lokað), hafa allir þessir aðilar þurft að aðlagast þeim áskorunum sem faraldurinn hefur haft í för með sér og takast á við aðstæður sem hafa breyst nánast dag frá degi.

Að mínu mati hafa kennarar unnið þrekvirki í þessum óvenjulegu aðstæðum. Skólar og kennarar hafa þurft að finna leiðir til að halda úti námi og kennslu, sem hafa verið allt frá því að færa borð nemenda svo meter sé á milli og huga að sóttvörnum yfir í hólfaskiptingu, fjarkennslu og að gera nám nemenda rafrænt. Í þessu samhengi verður núna athyglinni beint að kennurum – því þar sem þeir eru lykilfólk í öllu skólastarfi er vert að gefa dugnaði þeirra og sköpunarkrafti, sveigjanleika og útsjónarsemi, fagmennsku og kennslufræðilegu þekkingu góða eftirtekt.

Í þessum pistli og næstu þremur birtast örviðtöl við fjóra grunnskólakennara. Markmiðið var að kynnast þeim og þeirra kennslu, fá þeirra sýn og upplifun af árinu sem leið (2021) og jafnframt heyra um vonir þeirra og væntingar til ársins 2022 í sínu starfi. Von mín er að viðtölin geti veitt kennurum og öðrum sem hafa áhuga einhvern innblástur eða hvatningu inn í skólaárið.

Fyrsti kennarinn í þessari pistlaröð er Björn Kristjánsson, kennari í Laugalækjarskóla. Ég vil taka það fram að við Björn kenndum saman eitt ár í Norðlingaskóla þar sem við kenndum báðir íslensku og bjuggum til fjölmörg skapandi verkefni saman. Björn er ekki bara hæfileikaríkur kennari heldur er hann líka tónlistarmaðurinn Borko og heldur úti hlaupadagbókinni Hlaupabjössi á Instagram, sem ég veit að hefur verið hvatning fyrir marga til að fara út að hlaupa.


Kynning á kennara, kennsluháttum og kennslufræðilegri sýn.

Ég heiti Björn Kristjánsson og kenni í 9. bekk í Lauglækjarskóla. Þar er ég í teymi ásamt tveimur kennurum, þeim Nönnu og Stefáni, og saman kennum við Málið. Undir Málið falla allir tímar í íslensku, samfélagsgreinum og upplýsingatækni og við nálgumst námið út frá ákveðnum viðfangsefnum og verkefnum yfir afmörkuð tímabil frekar en ákveðnum námsgreinum og efnisþáttum innan þeirra. Þessi nálgun á nám og kennslu hugnast mér ákaflega vel enda eru þar mikil tækifæri til að gefa nemendum ákveðið frelsi að nálgast námið á sínum forsendum og út frá sínum styrkleikum. En frelsi fylgir alltaf ábyrgð og þess vegna þurfa nemendur líka að tileinka sér ákveðið sjálfstæði og taka ábyrgð á eigin námi. Allan minn kennsluferil haft að leiðarljósi að í minni skólastofu fari fram meira nám heldur en kennsla, að nemendum sé treyst og þeim gefið færi á að standa undir því trausti með því að taka vald yfir og vera gerendur í eigin námi.

Hverju ert þú stoltur af í þinni kennslu á árinu 2021?

Ég er gríðarlega stoltur af því að hafa átt frumkvæði að því að setja saman teymi og skapa jarðveg fyrir þá vinnu sem við vinnum í Málinu. Við upplifum að nemendur eru heilt yfir spenntir, áhugasamir og þakklátir fyrir þau verkefni og þær áskoranir sem við bjóðum þeim upp á þar. Þau standa sífellt betur undir því trausti sem við sýnum þeim, sýna sífellt aukið sjálfstæði og leggja metnað og alúð í vinnu sína og nám. Þetta hefði auðvitað ekki verið hægt án mikils áhuga og stuðnings skólastjórnenda á verkefni af þessu tagi enda lykilatriði að kennarar, fagmennska þeirra og hugmyndaauðgi séu drifkrafturinn á bak við skólaþróun.

Hvað fannst þér mesta áskorunin/mestu áskoranirnar á 2021 í þínu starfi?

Það eru margar áskoranir í kennarastarfinu og þær voru í raun þær sömu árið 2021 og árin 15 þar á undan og þær eru sennilega það sem er bæði það skemmtilegasta og um leið það erfiðasta við starfið. Helstu áskoranirnar eru alltaf að ná að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp þar sem nemendur hafa ólíka styrkleika, ólík áhugasvið og ólíkan bakgrunn. Með því að kynnast nemendum og tengjast þeim verður þetta verkefni alltaf auðveldara því þá er auðveldara að finna leiðir og lausnir sem henta hverjum og einum og laga efni að þeim og þeirra þörfum.

Hverju langar þig að forgangsraða og/eða viðhalda í þinni kennslu á árinu 2022?

Mig langar mjög að reyna að lækka aðeins tempóið og keyrsluna. Í skólunum erum við oft rosalega upptekin af því að halda plani, ná að klára og komast yfir námsefni og verkefni. Mig langar til að við getum oftar gefið okkur tíma til að staldra við og slaka á, njóta samveru og eiga gjöfular stundir saman. Það er rosalega mikill hraði og ákefð í samfélaginu og lífi barna og ungmenna í dag og mikilvægt að við reynum að finna leiðir til að gera skólann oftar að vin í þeirri eyðimörk, að við hægjum á og æfum okkur í að staldra við og uppskera hægt og rólega. Það er besta uppskeran.

Hvað er það sem mótiverar þig, drífur þig áfram eða veitir þér innblástur í þína kennslu og þú myndir vilja deila með öðrum kennurum inn í 2022?

Ég get verið rosalega kappsamur og vil gjarnan gera betur og ná lengra í dag en í gær. Ég er nýungagjarn og finnst ofboðslega erfitt að gera sama hlutinn aftur og aftur. Þessir eiginleikar mínir, eða brestir, eru að einhverju leyti það sem knýr mig áfram þótt þetta þvælist líka stundum fyrir mér. Ég vil meina að bakgrunnur minn í tónlist hjálpi mér mikið við að nálgast kennarastarfið á skapandi og gagnrýninn hátt. Sem listamaður verður maður að vera stöðugt tilbúinn að rýna verk sín og leitast við að finna nýjar leiðir til að bæta þau og gera enn betri og það hugarfar og vinnulag hefur nýst mér vel í kennslunni.

UTís ráðstefnan á Sauðárkróki er síðan sennilega það sem hefur gefið mér hvað mesta faglega innspýtingu á undanförnum árum. Þar hef ég kynnst fólki, hugmyndum og aðferðum sem ég nýti mér nánast daglega í minni vinnu. Þá finnst mér rafræna kennarasamfélagið á #menntaspjall Twitter og í Skólaþróunarspjallinu á Facebook ómetanlegt til að halda mér á tánum. Þar sé ég áhugaverða hluti sem aðrir eru að gera, fæ innblástur til að prófa nýja hluti og deili mínum hugmyndum og fæ viðbrögð við þeim. Faglega samtalið, jafnt innan skólans eða teymisins, við kollega í öðrum skólum og í hinu rafræna kennarasamfélagi, er það miklivægasta sem við tökum þátt í sem kennarar því þangað sækjum við innblásturinn og endurgjöfina og náum að lyfta hugmyndum okkar og vinnu mun hærra og lengra en nokkur kennari gæti gert einn síns liðs.