loader image
Viðmið um árangur 🎯

Á síðasta skólaári velti ég mikið fyrir mér hvernig ég gæti betur hjálpað öllum nemendum mínum þegar þau eru í því ferli að vinna í og skila verkefnum. Eins og eflaust flestir kennarar hafa upplifað þá fáum við fjölbreytt verkefni sem endurspegla mismunandi getu, skilning, áhuga og metnað nemenda.

Áður hafði ég mikið notað sýnidæmi og ástæðurnar fyrir því voru margar; til þess að gefa nemendum hugmynd um verkefnið og innblástur; til þess þeir sem væru minna sterkir námslega hefðu eitthvað akkeri til að styðjast við; til þess kveikja áhuga o.s.frv.

Það sem ég var að leitast eftir var hvernig ég gæti verið skýrari og sanngjarnari gagnvart nemendum mínum; þ.e.a.s að gera það sem verið var að meta skýrara og hafa hæfniviðmiðin sýnileg og skiljanleg.

Ég hafði lesið um á netinu um viðmið um árangur (success criteria) og matskvarða (rubrics). Sömuleiðis notaði ég reynsluna úr mínu eigin námi þar sem kennararnir létu okkur fá bæði sýnidæmi og viðmið um árangur þegar við unnum stór verkefni.

Í þessari færslu langar mig til að deila með ykkur tveimur útfærslum af viðmiðum um árangur sem ég notaði í minni kennslu með nokkuð góðum árangri. Bæði voru notuð í íslensku- og samfélagsfræði á unglingastigi.

Bókadómur 📔

*Athugið að þessi rammi var búinn til út frá viðmiðum um árangur kennarar Hörðuvallaskóla gerðu. Þau eiga því grunnhugmyndina sem ég byggði aðeins ofan á.

Einn af föstu punktunum hjá nemendum í íslensku- og samfélagsfræði var yndislestur og skil á bókarýni fjórum sinnum yfir skólaárið (tvö skipti fyrir áramót og tvö skipti eftir áramót). Bókarýnin var í formi ritdóms um eina bók sem þau höfðu lokið við að lesa.

Nemendur settu á sig gleraugu bókagagnrýnanda sem hafði það verkefni að fjalla um bókina; segja frá henni í stuttu máli, setja fram eigin hugleiðingar um söguna og meta hana.

🎯Tilgangurinn og markmiðið með verkefninu var m.a að þjálfa ákveðna færni og efla getu nemenda til að:

  • 1. Örva eigin hugsun (með því að lesa og velta bókinni fyrir sér – skilningur og túlkun).
  • 2. Koma hugsunum sínum skýrt og skipulega frá sér (uppbyggingu texta, vinnubrögðum, frágangur, málfar o.sfrv.)

Útkoman var þessi rammi sem myndin hér fyrir ofan sýnir. Eins og sjá má á þá voru valin fimm hæfniviðmið til þess að meta. Undir þeim reyndi ég svo að útlista nánar hvað hvert hæfniviðmið fæli í sér, þannig að hægt væri að benda nákvæmlega á hvort það atriði væri til staðar eða ekki. Til þess að gæta enn frekar sanngirnis bað ég nemendur um að merkja í gegnum þennan lista og láta hann fylgja með verkefnaskilunum í skilahólfinu á Google Classroom.

Gullregn 🌳

Þetta verkefni bjó ég til upp úr kvikmyndinni Gullregn eftir Ragnar Bragason. Markmiðið með þessu verkefni var (og er) að mörgu leyti ekki ósvipað markmiðum bókadómsins hér fyrir ofan. Við horfðum saman í skólanum á myndina, sem var aðgengileg á vef RÚV, og úrvinnsluhlutinn var síðan þetta verkefni.

Sú færni sem ég vildi að nemendur myndu þjálfa með sér í þessu verkefni var áfram þessi skapandi og gagnrýna hugsun (að geta komið auga á og velt fyrir sér skilaboðum sögunnar, og sett fram eigin hugleiðingar um efnið) en líka að geta komið verkefninu skýrt, skipulega og snyrtilega frá sér.

Hugmyndin með viðmiðin um árangur var að flestir ættu að geta náð ‘hæfni náð’. Viðmiðin reyndi ég að orða sem mest þannig að þau væru ekki óljós eða huglæg. Það er ekki nema í ‘framúrskarandi’ dálkinum þar sem matið er orðið mikið til huglægt.

Ef einhverjum líst vel á viðmiðin eða Gullregn verkefnið er viðkomandi velkomið að sækja þau á eftirfarandi slóðum:

Verkefni úr myndinni Gullregn

Viðmið um árangur fyrir bókadóm