loader image
Verkefni: Útvarpsleikhús í dönsku

Í byrjun skólaárs þurfti unglingadeildin að leysa ákveðin skipulags kapal sem líklega flestir kennarar sem vinna í teymum kannast við; að búa til góða stundatöflu og skipta á milli okkar námsgreinunum þannig að allir gætu uppfyllt sína kennsluskyldu. Hjá okkur þurftum við líka að fá fleiri kennara að borðinu í tungumálunum því nemendum var að fjölga nokkuð. Í þessu fólst að m.a að sumir kennarar færu út fyrir þægindarammann og kenndu aðrar námsgreinar líka. Til að gera langa sögu stutta þá féll í minn hlut að kenna hverjum árgangi í unglingadeildinni dönsku einu sinni í viku (samtals 3x í viku) ásamt Dagbjörtu dönskukennara.

Við Dagbjört byrjuðum á því að skipta á milli okkar flokkum hæfniviðmiðanna þannig að við tækjum ákveðin fókus; Dagbjört tók lesskilning og hlustun, og ég ætlaði að sjá um samskipti. Markmiðið hjá mér var því nr. 1, 2 og 3 að fá nemendur markvisst til að tala á dönsku og koma þeim yfir þann hjalla að þora að tala á dönsku.

Ég held að ég ætli ekkert að fara neitt ítarlega út í það hvað þetta verkefni (að kenna dönsku) ýtti mér mikið út fyrir þann þægilega takt sem ég var kominn í eftir að hafa kennt aðallega íslensku frá því að ég byrjaði. Ég játa það að í byrjun fannst mér ég ekki hafa hugmynd um hvað ég ætti að gera eða hvernig. En þó þokaðist þetta allt í rétta átt og langar mig því að deila með ykkur einu verkefni sem kom mér á óvart hvað heppnaðist vel. Það sem kom mér sérstaklega á óvart var að nemendur sem höfðu hingað til ekki sýnt neinn áhuga á dönsku tóku óvæntan kipp.

Verkefnið

Verkefnið snýst í grófum dráttum um að nemendur, 2-3 saman, búa til eitt útvarpsleikrit. Ég bjó til átta mismunandi „senur“ þar sem ég rammaði inn aðstæður úr raunveruleikanum; pizzastaður, fatabúðin, matarbúðin, kaffihúsið, bíó, lestarstöðin, Tivoli og heima. Í hverri senu fær hver og einn hlutverk og þurfa þau að leysa ákveðin verkefni. Þið getið skoðað hverja og eina senu með því að opna verkefnið hér neðst á síðunni.

Sem dæmi um eina senu eru þrjár persónur á pizzastað. Tveir eru vinir sem hittast saman á veitingastaðnum og þriðji er í hlutverki þjónsins. Vinirnir heilsast, setjast niður, biðja þjóninn um matseðilinn – sem á móti býður þeim drykki. Vinirnir skoða matseðilinn, ræða saman um hvað þeim langar í af matseðlinum og velja sér það sem þau ætla að borða. Þjónninn tekur pöntunina og vinirnir borða matinn. Jafnvel kemur þjónninn í millitíðinni og spyr hvort allt bragðist ekki örugglega vel. Í lokin biðja vinirnir þjóninn um reikninginn og ákveða hvernig þau skipta með sér reikningnum.

Tilgangurinn með verkefninu er samkvæmt markmiði tímanna hjá mér í dönsku; að brjótast út úr óörygginu að tala á dönsku og æfast í því að geta átt nokkurn veginn áfallalaus samtöl á dönsku.

Hæfnviðmiðin og viðmiðin um árangur eru undir verkefnalýsingunni en ég bætti við einu upplýsingatækni hæfniviðmiði svo ég gæti haft viðeigandi viðmið um árangur, eins og að þau noti bakgrunnshljóð úr hljóðbanka BBC, að leikritið sé klippt og sé samviskusamlega unnið. Ég setti upp einfalt sýnidæmi um handrit til þess að sýna hvernig þau skrifa upp lýsingar á aðstæðum, samtöl og bakgrunnshljóð.

Bakgrunnshljóð: Ég lagði áherslu á það við krakkana að í útvarpsleikriti þá sjáum við ekki neitt, heldur bara heyrum. Því þurfum við að hafa leikritið þannig að hlustandinn sjái hlutina fyrir sér og til að ná því er mikilvægt að setja inn bakgrunnshljóð. Mig langar því að minnast á frábæra síðu sem ég hef lengi ætlað mér að nota og fékk loksins tækifæri til, og það er BBC sound bank. Inni á þeirri síðu er hægt að fá alskonar hljóð til þess að setja inn, t.d göngugötur, samtöl inni á veitingastað, lestarstöð o.sfrv. Allt getur þetta glætt leikritið meira líf og gert það raunverulegra.

Nemendur fengu senurnar algjörlega af handahófi. Til þess setti ég allar senurnar inn í lukkuhjól sem ég svo sneri með nemendum í kennslustund, eftir að þau höfðu raðað sér í hópa.

👉BBC sound effects vefurinn 🔗

Smellið hér til að opna verkefnið og þá er tekið afrit af því