loader image
Verkefni: Gullregn eftir Ragnar Bragason

Í þessari færslu ætla ég að deila með ykkur verkefni sem ég bjó til fyrir nemendur í 9. og 10. bekk í íslensku. Verkefnið varð til snemma á þessu ári þegar stór hluti kennarateymisins og nemenda hjá okkur var sendur í sóttkví. Við vorum þrír eða fjór kennarar sem sluppum og deildum þá kennslu 9. og 10. bekkjar á milli okkar.

Markmið verkefnisins var fyrst og fremst að fá nemendur til þess að rýna í og túlka myndina Gullregn eftir Ragnar Bragason. Myndina horfðum við á saman í þremur kennslustundum en hún er aðgengileg á vef RÚV (til 10.janúar 2022) í þremur hlutum, hver hluti 47 mínútur.

Þegar ég bjó til verkefnið var ég mikið að hugsa um hvernig ég gæti gert verkefnin sem ég bjó til skýr; skiljanleg og einföld fyrirmæli, sýnileg hæfniviðmið og skýr viðmið um árangur. Mig langaði innilega til að allir gætu gert þetta verkefni. Verkefnið heppnaðist vel því að skilin voru ótrúlega góð! Ég held að það hafi líka spilað inn í að fjölmargir snertifletir myndarinnar eins og t.d stjórnsemi, yfirgangur, óheiðarleiki, heiðarleiki, andúð gegn innflytjendum, misnotkun á félagslegum úrræðum, einelti og brotin sjálfsmynd, gerði það að verkum að hún kveikti áhuga þeirra sem fylgdust með.

Eins og kom fram ofar í færslunni, þá var markmiðið með verkefninu að fá nemendur til þess að pæla í myndinni, velja sér sjónarhorn og skrifa út frá því. Ég vildi sömuleiðis að nemendur æfðust í því að færa rök fyrir máli sínu með því að taka dæmi úr myndinni. Þannig var ekki nóg að segja bara „myndin fjallar um fordóma og aðalpersónan er ömurleg“ heldur var nauðsynlegt að segja „í myndinni er fjallað um kynþáttafordóma, sem við fáum að sjá t.d þegar …“

Verkefnin sem ég fékk frá nemendum voru ótrúlega vel unnin og gaman að sjá pælingarnar frá þeim. Ég trúi því að það voru fjölmörg viðfangsefni myndarinnar, sem nemendur höfðu val um að skoða og skýrt verkefnið, sem skilaði sér í flottum og vel unnum verkefnum frá nemendum.

Verkefnið má sækja með því að smella hér og er þá tekið afrit af því.

Myndina má finna hér á vef RÚV