loader image

👨‍🏫

Ég heiti Helgi Reyr og er unglingastigs kennari í Reykjavík. Þetta blogg er helgað kennslufræði, skólaþróun og skólamálum, og sem vettvangur fyrir kennsluefni og fleira sem getur nýst öðrum í kennslu. Allt efni inni á síðunni sem ég hef búið til er öðrum frjálst til afnota.

Í júní 2019 útskrifaðist ég með M.Ed gráðu frá Ontario Institute for Studies in Education (OISE) sem er sú deild innan Háskólans í Toronto sem snýr að menntunar- og kennslufræðum, og rannsóknum á því sviði. Í náminu beindist áhugi minn sérstaklega að menntun til borgaravitundar (e. Citizenship education) – þ.e.a.s því ferli hvernig skólar undirbúa unga einstaklinga til virkrar lýðræðislegrar þátttöku – og þeim mörgu flóknu spurningum sem þessu ferli fylgir. Námið leiddi til þess að sumarið 2018 vann ég að lítilli rannsókn í samstarfi við dr. Kristínu Jónsdóttur fyrir Rannís um stöðu og stefnumótun menntunar til hnattrænnar borgaravitundar hér á landi. 

Heimspeki og hugmyndafræði krítískrar kennslufræði (e. Critical pedagogy) er minn kompás í allri minni kennslu en sú stefna leggur áherslu á að félagslegt réttlæti og lýðræði eigi að vera markmið menntunar – en einnig að menntun er hápólitískt fyrirbæri. Því mótast öll mín nálgun á kennslu, allt frá kennsluháttum til námsmats og inntaks kennslunnar, að því að auka þátttöku nemenda og vitund þeirra á samfélaginu sem þau tilheyra og skoða það með gagnrýnum augum svo þau megi verða þátttakendur sem beri hag samborgara sinna fyrir brjósti.