loader image
Sköpun, seigla, hugrekki og skólastarf

Upp á síðkastið hef ég verið að lesa bókina Big Magic: Creative Living Beyond Fear eftir höfundinn Elizabeth Gilbert (sami höfundur bókarinnar Eat, Pray, Love). Big Magic er í mjög svo stuttu máli samtal um það af hverju við ættum að gefa sköpunarkraftinum sem býr í okkur öllum pláss og jafnframt hvatning til okkar allra um að byggja upp hugrekkið til að vera meira skapandi. Það sem við sköpum þarf ekki að vera alltaf eitthvað mikilfenglegt sem vekur athygli eða breytir heiminum, heldur er sköpunin eitthvað sem einfaldlega veitir hverjum og einum lífsfyllingu, ánægju og gleði. Það er í raun nægur tilgangur og rökstuðningur fyrir því að vera skapandi. Ekki síst er aldrei of seint að byrja að vera skapandi og það er eitthvað sem við ættum að leitast við alla ævi.

Í gær horfði ég svo á stuttan TED fyrirlestur um mikilvægi þess að við fáum öll tíma til að vera forvitin og leika okkur; skoða, kanna, máta, hætta og prófa eitthvað annað. Fyrirlesarinn, David Epstein, fjallar um þá algengu hugsun að við verðum snemma að ákveða hvað við ætlum okkur að verða í lífinu og einblína helst bara á það – það sé lykillinn að árangri og gefur mikilvægt forskot. Talar hann til dæmis um 10.000 klukkustunda regluna sem varð vinsæl og fjallað var um í bók Malcolm Gladwell Outliers; til þess að verða sérfræðingur eða góð í einhverju (t.d. læra á píanó, verða atvinnumaður í tennis eða myndlistarmaður) þarf að leggja 10.000 klukkustundir í það. Nefnir hann afreksfólk á hinum ýmsu sviðum sem náði langt vegna þess að það byrjaði svo snemma – og að það sé vegna endurtekinnar æfingar þessum tiltekna hlut. „Practice makes perfect“ heyrum við gjarnan sagt.

En Epstein setur spurningarmerki við þessa nálgun sem er svo gjarnan haldið að okkur; við viljum byrja snemma því þannig náum við mikilvægu forskoti og markmiðum okkar um að verða sérfræðingar. Hann nefnir sem dæmi Duke Ellington, Vincent Van Gogh og Roger Federer sem öll gerðu allt aðra hluti áður en þau hófu feril sinn sem píanóleikari, myndlistarmaður og atvinnumaður í tennis. Þessir einstaklingar gáfu sér tíma til þess að prófa eitthvað allt annað áður en þau lentu á því sem varð að þeirra ferli.

Þrátt fyrir að fyrrnefnda aðferðin (að verða sérfræðingur í einhverju snemma) skilaði fólki almennt fyrr út á atvinnumarkaðinn og háum launum þá sýndu rannsóknir að það fólk entist almennt styttra í sínu fagi og hafði minni atvinnusveigjanleika (þ.e það hafði minna svigrúm til að skipta um atvinnugrein vegna sérhæfingar sinnar). Einstaklingarnir sem fóru ekki þessa leið (byrjaði fyrst á að prófa, hætta, prófa eitthvað annað) entist lengur í því sem það loks endaði á að gera, hafði svipað háa innkomu og upplifði meiri ánægju af því sem það var að gera – vegna þess að það gaf sér tíma til að skoða, máta og finna út hvað það var sem það vildi gera áður en það hóf sinn feril. Og það sem ekki síst var mikilvægt var að þessir einstaklingar bjuggu yfir meiri sveigjanleika, bæði í atvinnutækifærum en líka til að hugsa skapandi og lausnamiðað – vegna þeirrar ólíku og fjölbreyttu reynslu sem það hafði viðað að sér – eiginleiki sem við getum flest verið sammála um að sé mikilvæg í síbreytilegum heimi.

Þessar pælingar Elizabeth Gilbert og David Epstein hafa vakið mig til umhugsunar um hvað okkur þykir eftirsóknarvert að rækta og efla hjá nemendum í skólakerfinu. Því langar mig örstutt að beina athygli að því hvernig ég held að sköpun, hugrekki, forvitni, þrautseigja og seigla eru mikilvægir liðir í námi sem við ættum að leitast við að gera sýnilegri í skólastarfi. 

Sköpun og hugrekki

Það sem er framarlega í mínum huga eru mikilvægi sköpunar og hugrekkis (innskot: mæli með að fólk les bækurnar hennar Brené Brown um hugrekki og berskjöldun). Eins og Elizabeth Gilbert ræðir með svo sannfærandi hætti í bókinni sinni þá er sköpun svo mikilvæg leið fyrir manneskjur til að tjá sig; koma frá okkur því sem við komum ekki annars í orð, fá útrás, hugleiða eða einfaldlega gleðja okkur sjálf. En það sem er líka mikilvægt er að með sköpuninni fylgir alltaf þroski eða nám. Og sköpunarferlið krefst hugrekkis, því að samofið sköpunarferlinu fylgir að við opnum okkur, hugsum, pælum, prófum, gerum mistök, reynum aftur og að þora. Það sem ég held að sé líka þess virði að muna er að um leið og við finnum að eitthvað er okkar, þá fylgir líka áhuginn – og þá viljum við yfirleitt helst ekki sleppa því.

Forvitni

Ég held að við sem vinnum í skólum megum ekki gleyma að finna og reyna að fylgja forvitninni – bæði hjá okkur sjálfum og nemendum okkar. Ég veit að það sem mér sjálfum þykir ótrúlega spennandi og er forvitinn um eru nemendur mínir í fæstum tilfellum jafn forvitin um og spennt yfir eins og ég. En ég held að ef við náum að gefa tíma fyrir forvitni, þar sem litlir neistar geta sprottið upp og kynda undir þessa neista, þá fer svo margt annað að rúlla náttúrulega. Einkunnir og tíminn sem við viljum setja í þetta tiltekna verk fer að skipta minna máli ef við erum forvitin. En við þurfum að fá svigrúm til að leyfa forvitninni að koma og leyfa henni að vaxa. Við þurfum að fá tíma til þess að elta forvitnina hvert sem hún leiðir okkur. En það þýðir að skólar þurfi að einhverju leyti að sleppa tökunum; á því að þurfa að meta allt, á því sem við okkur er sagt að gera og þora að fara út fyrir formið. Sjálfsagt er þetta áhætta, en í lífinu þurfum við að taka áhættu og treysta því að hvað svo sem hið óvænta hefur í för með sér þá komumst við alltaf í gegnum það. 

Þrautseigja og seigla

Loks langar mig að beina athyglinni að þrautseigju og seiglu, sem ég var að vísu byrjaður að velta mikið fyrir mér áður en ég las Big Magic og hafði horft á fyrirlesturinn. En bæði bókin og fyrirlesturinn settu þetta í skýrara samhengi fyrir mig – því þrautseigja og seigla eru bæði hráefnin af því að vera skapandi og að námi. Þegar við sköpum lærum við að hlutir taka tíma; til þess að finna hvað okkur langar að skapa lærum við að við þurfum fyrst að leita og fá innblástur; að gera mistök, finna fyrir pirringi og byrja upp á nýtt eru ekki til þess að rjúfa sköpunarferlið heldur hluti af sköpunarferlinu – þ.e. skref sem nauðsynlegt var að taka til að komast þangað sem okkur langaði. Í þessu samhengi langar mig að benda á the learning pit sem er hugarfóstur James Nottingham og er gagnlegt til að hugsa um námsferlið sem ekki bara línulegt áreynslulaust ferli. 

Skólastarf

Þó svo að ég hafi í þessari færslu tengt sköpun, hugrekki, forvitni, þrautseigju og seiglu við skólastarf þá langar mig aðeins að koma inn á þrjár birtingarmyndir þessara þátta í skólastarfi. Fyrr á þessu skólaári kynntist ég http://www.20time.org sem er hugmynd sem byggir á því að 20% af tíma nemenda í skóla (uþb einn dagur á viku) fari í það að nemendur búi til lausn á vandamáli sem þau sjálf finna.

Í unglingadeildinni þar sem ég kenni settum við af stað áhugasviðsverkefni í upphafi Covid þar sem nemendur fengu frjálsar hendur til þess að leika sér, kanna eða búa til það sem þeim langaði. Þessa hugmynd ákváðum við svo að halda áfram með þetta skólaár. Áhugasviðsverkefnið má vera hvað sem er en við biðjum um að allir skrásetji ferlið sitt t.d. með myndum eða dagbók, og að vinnunni fylgir einhverskonar afrakstur eða afurð. Í þriðja lagi er ég sannfærður um að við eigum að gefa listgreinum meira vægi og rými í skólastarfi. Með því værum við ekki neitt að skerða skólastarfið, öllu heldur trúi ég að við gefum því meira líf og styrkjum um leið þá þætti sem athyglinni var beint að hér á undan.


Sjálfur reyni ég að vera skapandi bæði utan vinnu og í vinnu. Mér finnst gaman að prófa eitthvað nýtt og reyni að vera skapandi. Ég tek ljósmyndir og reyni með því að fanga augnablik eða það sem mér finnst einfaldlega fallegt. Ég reyni að skrifa, hlusta og lesa, og þannig reyni ég að viðhalda minni eigin forvitni. Stundum spila ég á gítar og stundum bý ég til myndir í Procreate. Sumt er bara fyrir mig en annað vil ég sýna öðrum. Ég hef áhuga á tölvum og tækni, og finnst gaman að fikta og prófa á því sviði. En ég hef uppgötvað að allt sem ég gef mér tíma til að gera og er skapandi, það finn ég farveg fyrir einhvers staðar annars staðar – þó það sé stundum löngu seinna.