loader image
Orðakort 💬

Í september á síðasta ári var okkur settar frekar þröngar skorður (vægt til orða tekið) í kennslunni vegna Covid. Skólinn var tvísetinn, sem þýddi það að nemendum var skipt fyrir og eftir hádegi. Til þess að fylla upp í tímana sem nemendur misstu út færðum við okkur að hluta til yfir í fjarkennslu. 

Það hafð blundað í mér í svolítinn tíma að búa til markvisst orðaforðaverkefni fyrir nemendur. Ég var sérstaklega mikið búinn að hugsa um það hversu mikilvægt það er að örva orðaforða og hvernig ein leið til að gera það væri með því að sýna nemendum mikið af orðum og vinna mjög meðvitað með þau. Inni á síðu sem ég kíki gjarnan á, ditch that textbook (sem ég n.b mæli með!), hafði ég séð útfærslu sem mér fannst áhugaverð, rímaði við þessar pælingar mínar og ég vildi nota sem fyrirmynd (sjá mynd fyrir neðan).

Til varð í Google Slides mín útfærsla á þessu verkefni sem ég kalla Orðakort. Ég lagði verkefnið inn í kennslustund hjá 8.bekk sem var alfarið í fjarkennslu og fór fram á Google Meet. Ég sýndi þeim hvernig þau geta notað orðabókina málið.is, deildi verkefninu með nemendum í gegnum Google Classroom og skráði tvær til þrjár glærur á nemendur sem ég hafði skipt upp í litla hópa (þrjú til fjögur saman). Nemendur unnu verkefnið saman í gegnum Slides og spjölluðu samtímis í gegnum myndsímtöl (ýmist á Meet eða öðrum forritum). Eftir rúman hálftíma hittums við aftur í hópsamtalinu á Meet og hver og einn hópur kynnti sín orðakort. 

Orðin sem eru í þessu orðakorti sem ég deili hér með ykkur eru hugsuð með virðingu í samskiptum í huga. Þ.e.a.s ég vildi taka fyrir orð sem flest snerta á einhvern hátt jákvæð og virðingarfull samskipti. En það er sjálfsagt að skipta orðunum út og setja orð sem eru undir öðru þema. 

Verkefnið má nálgast hér og er þá búið til afrit af því.