loader image
Nám á eigin hraða (e. Self paced learning)⏱

Þegar ég fór á UTís árið 2019 ásamt öðrum frábærum kennurum, fór ég á vinnustofu sem hefur fylgt mér í minni kennslu síðan. Vinnustofan hét Upping Your Classroom Game og var stýrt af Jesse Lubinsky (mæli með að skoða Twitter reikninginn hans þar sem hann deilir mörgu fróðlegu og gagnlegu efni: @jlubinsky).

Í þessari vinnustofu opnaði Jesse fyrir okkur sína rafrænu verkfærakistu sem hafði margt gagnlegt að geyma til að nota í kennslu. Eitt af þessum verkfærum voru hyperdocs sem að ég hafði ekki heyrt um áður en fannst mjög áhugavert. Í grunninn og mjög stuttu máli þá eru hyperdocs kennsluáætlanir (lesson plans) fyrir lotur eða verkefni en eru gagnvirk skjöl, þ.e.a.s þau eru eru hlaðin hlekkjum (links) á ýmis konar efni sem kennarinn vill að nemendur skoði og nemendur geta á móti unnið skapandi með skjölin.

Skjölin geta litið alskonar út en eru í öllum tilfellum vel skipulögð og hafa skýra uppsetningu. Það er, uppbygging fylgir ákveðnu formi sem er yfirleitt engage – explore – explain, apply, share. Þessi skynsama uppbyggin minnti mig á flokkunarkerfis Bloom sem ég hafði áður lært um í skólanum (hjá Auði Pálsdóttur) en það kerfi sýnir hvernig námsmarkmið í kennslu byggjast upp í þrepum frá einföldum stigum hugsunar til flókinnar hugsunar (þetta er örskýring á þessu kerfi – mæli með að áhugasamir kynni sér þetta frekar, enda er það mjög gagnlegt).

Þegar ég svo las grein á Cult of Pedagogy (How to Create a Self Paced Classroom) sem fjallar um hvernig megi skipuleggja nám sem miðar að því að nemendur geti farið á eigin hraða bjó ég til tvö verkefni þegar við vorum að fara í ljóðavinnu með 8. og 9. bekk. Með þá þekkingu sem ég hef talað um hér fyrir ofan þá voru tvö markmið sem ég hafði þegar ég bjó til verkefnin:

1. Að verkefnið gæfi nemendum frelsi og myndi virkja þeirra sjálfstæði; þ.e að þeir gætu farið á sínum hraða og gætu unnið sjálfir eða saman með öðrum allt ef því hvað hentaði.

2. Að forðast langar innlagnir fyrir allan bekkinn þar sem ég stæði og talaði á meðan þau sætu og hlustuðu.

Það skal tekið fram að markmiðin sem ég vildi ná með ljóðavinnunni sjálfri voru önnur og verður reynt að fjalla um þau í annarri færslu síðar.

Útkoman voru þessi tvö ljóðaverkefni sem sjá má á meðfylgjandi myndum (hlekkur á þau eru neðst á síðunni). Ég skipti verkefninu upp í þrjá eða fjóra hluta og alltaf með það í huga að það væri framvinda og uppbygging þar sem nemandinn færði sig alltaf á flóknara stig hugsunar. En sömuleiðis vildi ég hafa verkefnið einstaklingsmiðað, þannig að hver og einn gæti farið á sínum hraða.

Ég var hæst ánægður með útkomuna og fannst þetta verkefni heppnast mjög vel í verki. Vissulega er hægt að finna margar útfærslur á námi á eigin hraða, eins og einföld leit á netinu leiðir í ljós. Það sem eflaust einhver kemur auga á að þá eru bæði þessi verkefni mjög stýrð. Eflaust má finna leiðir til þess að hafa svona verkefni minna stýrð en það fer auðvitað bara eftir hvað hentar hverju sinni.

Smella hér til þess að taka afrit af verkefni 1

Smella hér til þess að taka afrit af verkefni 2