loader image
Um fjármálalæsi í grunnskólum

Fyrir stuttu rakst ég á pistil á Facebook sem mér þótti mjög eftirtektarverður og þess virði að fjalla nánar um. Ég deildi færslunni og bætti við nokkrum af mínum hugleiðingum um þetta mikilvæga mál og langar að birta líka hér.

Í færslunni beinir höfundur, Halla Gunnarsdóttir, athygli að framtaki menntamálaráðherra, sem unnið er í samstarfi við Fjármálavit (stofnun í eigu Samtaka Fjármálafyrirtækja og þar af leiðandi sérhagsmunasamtök) um að setja fjármálalæsi á dagskrá grunnskóla. Halla bendir á að það sem liggur bakvið þessa áherslu á kennslu fjármálalæsis sé sú mýta að fjármálavandi fólks sé til kominn vegna þess að því hafi ekki verið kennt að verða læs á fjármál. En eins og Halla bendir á þá er rétt að hafa tvennt í huga þegar svo einföld mynd er máluð upp af dýpri vanda: stétt og fjárhagsstaða foreldra skipta máli. Misjöfn fjárhagsstaða einstaklinga verður ekki til vegna þess að sumir eru duglegri en aðrir að vinna og spara, heldur vegna þess að ójöfnuður og misskipting þrífst í samfélaginu.

Færsla Höllu Gunnarsdóttur um fjármálalæsi


Undirliggjandi er sú mýta að fjármálavanda fólks megi rekja til þess að það hafi enginn kennt þeim að lesa vaxtatöflur bankanna.
Staðreyndin er sú að það er tvennt sem ákvarðar velgengni í fjármálum: stétt og fjárhagsstaða foreldra. Misjöfn fjárhagsstaða foreldra er ekki komin til af því að sumir foreldrar séu svo rosalega duglegir að vinna og spara og aðrir ekki, heldur vegna ójöfnuðar og misskiptingar. Og fólk tekur ekki heimskuleg lán því það er heimskt heldur vegna þess að það hefur ekki val um annað og peningakerfið (sem er heimskt) vinnur gegn þeim.“

Það að setja fjármálalæsi fram sem mjög nauðsynlegt nám í grunnskólum nútímans finnst mér frekar grunnt og yfirborðskennt, en fellur hinsvegar mjög vel að algengu og lúmsku narratívi nýfrjálshyggju; þ.e að fjármálavandi einstaklinga sé vegna þess að það er ekki nægilega upplýst og klókt í fjármálum. „Farsæld snýst um að vera nógu séður í peningamálum“. Er þá einstaklingurinn sem vinnur tvö eða þrjú störf til þess að ná endum saman einfaldlega ekki nógu séður í fjármálum?

Þessi „lausn“ er því lítið annað en tálsýn gert til þess að viðhalda gildum og hagsmunum kapítalísks samfélags, fremur en gildum lýðræðis þjóðfélags og hagsmunum almennings. Mínar áhyggjur af því að setja fjármálalæsi á dagskrá í grunnskólum eru fyrst og fremst þær að það ýti enn fremur undir þá hugsun að tilgangur og markmið menntunar snúist alltaf um að öðlast pening og frama. Þetta beinir athygli okkar frá hvort öðru og að þeirri hugsun að vandamálin í samfélaginu varði okkur ekki, heldur séu bara annarra.

Það sem ég horfi á sem meira knýjandi verkefni í grunnskólum er að byggja upp heilsteyptar, umhyggjusamar, einlægar og hugrakkar manneskjur, sem hafa sterk gildi og heilbrigð viðhorf, eins og að bera virðingu fyrir jörðinni og öðrum manneskjum. Það gerum við með því að auka vitund okkar á samfélaginu í kringum okkur; loftslagsbreytingum, tækniframförum, ójöfnuði og misskiptingu, og örva hugsun til dæmis með sögum, ljóðum, heimspeki, siðfræði og tungumálanámi.