
Hlaðvörp (e. Podcasts) eru nokkuð sem ég hef tekið eftir að fleiri og fleiri kennarar eru farnir að nota með nemendum sínum í sinni kennslu, enda er til heill hellingur af þáttum á netinu um nánast allt milli himins og jarðar. Það er nánast sama hvað viðfangsefnið er því það eru góðar líkur á að það sé til hlaðvarpsþáttur um það, bæði á íslensku og öðrum tungumálum!
Ég held að ég þurfi ekki að fjölyrða um alla þá kosti sem hlaðvörp í kennslu bjóða upp á;
- nemendur geta aflað sér þekkingar með því að hlusta (sem hentar mjög mörgum, sérstaklega þeim sem finnst síður gaman að lesa)
- nemendur geta stjórnað því sjálfir sinni hlustun (stoppað, spólað til baka, hlustað heima, úti o.sfrv.)
- úrval hlaðvarpa býður upp á að virkja enn meira áhugasvið nemenda og tengja það þeirra námi
- ….svo fátt eitt sé nefnt.
Svo má líka nefna að það er til aragrúi af hlaðvörpum um kennslufræði og skólamál, sem geta verið eðal hversdagsleg endurmenntun fyrir kennara!
Síðan eru kanónu kennarar sem hafa búið til sína eigin hlaðvarpsþætti. Ingvi Hrannar er með Menntavarpið, sem er aðallega miðað að kennurum. Oddur Ingi og Hjalti Halldórsson í Langholtsskóla hafa haldið úti Ormstungum, ekki bara fyrir sína nemendur heldur nemendur og kennara um allt land. Síðast en ekki síst hafa Björn Kristjánsson í Laugarlækjarskóla og Hjalti Magnússon sem kennir með mér í Norðlingaskóla búið til hágæða hlaðvarpsþætti m.a um Brexit og nú nýlega um kosningarnar framundan. Sjálfur gerði ég einn hlaðvarpsþátt fyrir námskeið um einræðisherra, þar sem viðfangsefnið var Sádi-Arabía.
En svo má snúa dæminu við; hvað með að kenna nemendum að búa til sína eigin hlaðvarpsþætti? Geta hlaðvörp verið leið fyrir nemendur til þess að sýna hvað þeir hafa lært?
Í miðvikudags smiðjum hjá okkur í Norðlingaskóla vildum við reyna þetta og bjuggum við til smiðju sem teygir sig yfir þrjú skipti þar sem nemendur læra að búa til hlaðvarp. Smiðjan/verkefnið byggir að stórum hluta til á glæsilegu námsefni/vinnubók sem Oddur Ingi kennari í Langholtsskóla bjó til og deildi á Twitter. Í þeirri bók fer hann skemmtilega og ítarlega í gegnum það ferli hvernig maður býr til hlaðvarp. Með efninu fylgja frábær kennslumyndbönd frá Björgvin Ívari kennara í Langholtsskóla.

Þessi vinnubók kveikti hjá mér löngun til þess að búa til verkefni fyrir þessa smiðju okkar, en vildi ramma það aðeins öðruvísi inn. Þar sem við vinnum mikið í anda leiðsagnarnáms bætti ég við skýrum fyrirmælum, hæfniviðmiðum, viðmiðum um árangur, námsmarkmiðum og sýnidæmum. Í verkefninu eru bútar úr námsefninu hans Odds og sömuleiðis kennslumyndböndin hans Björgvins Ívars.


Þar sem eflaust einhver kennari á eftir að velta því fyrir sér hvernig hún/hann/hán eigi að finna tíma til að fara yfir og meta jafnvel tugi hlaðvarpsþátta þá benti Björn Kristjánsson á góða lausn sem er að láta nemendur meta hlaðvarpsþætti hvors annars (jafningjamat). Þá er t.d hægt að láta nemendur hlaða upp þættinum og búa til QR kóða sem hægt er að skanna.
Eins og áður þá er ykkur frjálst að nota þetta verkefni með ykkar nemendum og það væri gaman að fá að heyra af afrakstrinum!
Verkefnið má nálgast með því að smella hér og þá er tekið afrit af því.