loader image
Vikulegt áforms skjal

Ég held að það að kenna börnum að skipuleggja sig og halda utan um nám sitt sé mikilvægur liður í því ferli að gera þau að sjálfbærum, sjálfstæðum og ábyrgum einstaklingum.

Þar sem ég kenni hafa svokallaðir áformstímar verið fastur liður í skólastarfinu (að ég best veit alveg frá upphafi skólans). Í þessum tímum skrá nemendur niður verkefni vikunnar framundan með kennara/kennurum sínum og læra þannig að halda utan um og skipuleggja nám sitt. Hugsunin á bakvið þetta fyrirkomulag er að skapa einstaklingsmiðað nám, þar sem nemandi og kennari eiga samtal um nám nemandans og gera áætlun út frá því.

Að mínu mati er mikið nám sem á sér stað í þessu ferli umfram einstaklingsmiðunina sem er markmið fyrirkomulagsins; nemendur læra að skipuleggja sig fram í tímann sem á móti skapar ákveðin fyrirsjáanleika og minnkar óvissu. Ekki síður held ég að nemendur læri að vera sjálfstæðir, sjálfbærir og ábyrgir námsmenn. Því geta margir nemendur lært að temja sér öguð vinnubrögð og fá einnig vald til að stýra eigin námi.

Þar sem ég er mikill talsmaður skýrleika og góðs skipulags (sem mér þykir jafnframt mikilvægt að kenna nemendum) þá bjó ég til áformsskjal í Google Slides sem aðrir kennarar mega fá og geta vonandi notað.

Skjalið hefur orðið hægt og rólega til út frá umhverfinu sem við erum í. Í fyrsta lagi þá eru námshóparnir stórir og fjölbreyttir. Yfirleitt eru tveir umsjónarhópar á einu námssvæði. Á námssvæðunum eru stórir skjáir þar sem kennarar geta varpað þessu skjali upp og spilað sjálfvirkt þannig að Google Slides skiptir sjálfkrafa um glærur á t.d 10 sekúndna fresti. Í áformstímunum fylgjast nemendur með og skrá svo niður sjálf eða með hjálp kennara verkefni vikunnar, skipuleggja sig og velja sér verkefni til þess að vinna í.

Eins og við höfum unnið þetta skrifar hvert faggreina teymi inn áform fyrir vikuna fyrir hvern árgang. Hver faggrein er því með eina síðu (glæru) og standa verkefni vikunnar í því fagi á þeirri síðu, eftir árgangi. Myndirnar hér fyrir neðan útskýra þessa hugmynd ágætlega.

Áform vikunnar 31. janúar – 4. febrúar í íslensku. Nemendur voru að vinna í málfræði en unnu í mismunandi hlutum málfræðinnar eftir árgöngum.
Áformin í stærðfræði fyrir vikuna 31. janúar – 4. febrúar

Kennurum er frjálst að sækja sniðmát af þessu námsskipulagsskjali og breyta að vild. Þar sem þetta er allt gert í Google Slides þarf bara að smella á textann og breyta honum, og það má snúa þessu á hvolf þess vegna ef tímum nemenda er ekki skipt niður í hefðbundnar námsgreinar. Til dæmis má í staðinn skrifa þar sem stendur námsgreinin efst á síðunni nafnið á þema sem verið er að vinna í (t.d „Geimurinn“) og svo undir þar sem árgangurinn stendur er hægt að skrifa nöfnin á hópunum. Svo má útfæra þetta að sjálfsögðu á annan hátt, allt ef því hverjar þarfirnar eru.

Í lokin þá vil ég nefna að það er mjög gott að fara með nemendum yfir þau fjölmörgu verkfæri sem eru í boði til þess að halda utan um verkefni, skipuleggja sig og muna skilafresti. Til dæmis má nefna Trello, Reminders og Notes (í öllum iPhone símum) eða einfaldlega Google Calendar.