loader image
5 kennslublogg til að fylgjast með 🌍

Ein af ástæðunum fyrir því að mig langaði svo til að setja þessa síðu á laggirnar er að stórum hluta til út af þeim kennslubloggum sem ég sjálfur hef skoðað mjög mikið. Í þessar síður hef ég gjarnan leitað til að fá hvatningu, góðar hugmyndir og kennslufræðilegan innblástur – sem hefur svo oft komið að góðum notum, sérstaklega þegar ég hef viljað finna lausn við einhverju vandamáli tengt kennslunni.

Því langar mig í þessari færslu til að miðla áfram þessum síðum sem hafa gagnast mér sjálfum. Ég er viss um að þær eigi eftir að vera einhverjum hvatning og koma að gagni. Að minnsta kosti má bæta þeim við í bookmarks. Til þess að komast inn á síðurnar má smella beint á nafnið á hverri síðu.

1) Cult of Pedagogy

Ég uppgötvaði þessa síðu fyrir tilviljun þegar ég var í náminu úti í Toronto. Síðan þá hef ég litið inn á það vikulega (glöggir lesendur sjá hvaðan ég hef fengið innblásturinn fyrir mína eigin síðu)! Færslurnar eru vandaðar, vel settar fram og faglegar – þ.e þær byggja á þekkingu og reynslu. Það sem mér finnst einkenna þetta blogg er að það er framsækið, gagnrýnið (critical) og nútímalegt. Á blogginu er einlæglega leitast við að miðla til kennara og bæta menntun og skólstarf.

Á síðunni er farið mjög víða og þeir sem líta inn á það sjá að þar kennir ýmis að grasa; blogg, hlaðvarp, myndbönd og verslun. Undir blogginu má finna ýmsa pistla sem snúa að kennslunni sjálfri svo sem kennsluháttum, bekkjarstjórnun og tækni sem getur komið sér vel í kennslu. Ekki síður er áhugaverður hluti síðunnar sem snýr að því að hlúa að kennaranum (teacher soul). Þar eru reynslusögur og pistlar sem ég hef sjálfur speglað mig í, sem veitir huggun á þeim dögum sem hafa verið krefjandi. Einnig má finna fróðlegar færslur sem tengjast meira kennslufræðum, svosem um námskenningar og ýmis bókarýni.

Ég hef af og til hlustað á hlaðvarpið og kennslumyndböndin eru tiltölulega ný viðbót við síðuna sem ég á eftir að skoða en lofar góðu!

Góð grein til þess að byrja á: https://www.cultofpedagogy.com/co-constructing-success-criteria/

2) EduTopia

Þessi síða er á vegum The George Lucas Educational Foundation sem hinn alkunni höfundur Stjörnustríðs sagnabálksins, George Lucas, stofnaði og fjármagnar (fyrir Stjörnustríðs nörd eins og mig þá er þetta mikill bónus, þó svo að það sé lítið minnst á Star Wars þarna). Við vinnsluna á þessum pistli komst ég að því að áhugi George Lucas á menntun varð til vegna hans eigin reynslu úr skóla en þar fann litla hvatningu og fannst skólinn yfirleitt meira ergjandi en skemmtilegur (nema þegar einstaka kennarar náðu að vekja áhuga hans). Í dag brýnir hann fyrir öðrum mikilvægi skóla og menntunar; svo heilbrigt lýðræðissamfélag geti þrifist og einstaklingar geti fundið og ræktað hæfileika sína. Þessi síða er því hans framlag til þess að styðja við skólaþróun.

Á þessu bloggi er sérstök áhersla lögð á verkefnamiðað nám (Project Based Learning) og nám sem stuðlar að aukinni félags- og tilfinninga greind (social and emotional learning). Að sjálfsögðu má finna á síðunni gríðarlega uppsprettu af öðru efni, svo sem eins og innleiðingu á margvíslegum tækniverkfærum, leiðum til að bæta fjarkennslu og svo framvegis.

Góð grein til að byrja á: https://www.edutopia.org/article/how-engage-students-historical-thinking-using-everyday-objects

3) IngviHrannar.com

Ég geri fastlega ráð fyrir að þetta blogg þekki allir sem koma eitthvað nálægt skólamálum á Íslandi. Ingvi Hrannar er frumkvöðull og brautryðjandi innan skólaþróunar á Íslandi og hefur verið þvílíkt mikilvægur í að styðja við skólaþróun á Íslandi, til dæmis með Utís og #menntaspjall á Twitter.

Ég hef í ófá skipti farið í gegnum vefinn hans Ingva Hrannars og litið mikið upp til þess sem hann er að gera. Það sem hann gerir er sérstaklega skapandi, faglegt og frumlegt. Hann notfærir sér tæknina og sér hvað miklir möguleikar eru fyrir hendi. Í staðinn fyrir að segja „þetta er það sem er að í skólakerfinu – hver ætlar að laga það?“ virðist Ingvi Hrannar leitast frekar við að „Hey! Hér er hugmynd að lausn á þessum vanda“.

Eins og hinir tveir vefirnir miðlar Ingvi ekki bara verkefnum eða reynslusögum, heldur styður hann líka við kennara með ýmsum verkfærum sem hann hefur búið til.

Góður staður til að byrja á: http://ingvihrannar.com/namsmatsyfirlit-i-einstaka-verkefnum-gjof-til-kennara/

4) Teach Thought

Þessi síða hét áður Teaching Tolerance. Hún snýst meira um að miðla verkefnum og verkfærum til kennara sem miða að því að örva gagnrýna hugsun og stuðla að félagslegu réttlæti. Á síðunni má finna spurningaramma, textabrot, sniðmát og greinar sem eru ótrúlega gagnleg. Oft hef ég notað efni af þessari síðu sem innblástur og gerði það m.a þegar ég bjó til spurningaramma fyrir nemendur við vinnu þeirra í Gísla sögu (sjá hér).

Eins og með síðurnar hér á undan þá er leitast við að brjóta upp hið hefðbundna nám og hinn hefðbundna skóla. Til dæmis má finna á síðunni greinar sem sýna fjölbreyttar leiðir til þess að meta nám nemenda; leiðir til einstaklingsmiðunar; leiðir til styðja við andlega líðan nemenda og áfram má upp telja.

Góð grein til að byrja á: https://www.teachthought.com/pedagogy/12-alternatives-to-letter-grades-in-education/

5. Ditch That Textbook.

Síðast en ekki síst er þessi ágæta síða – Ditch That Textbook! Ég hef ótrúlega oft fengið hugmyndir af verkefnum frá þessari síðu, búið til og aðlagað. Matt Miller, höfundur þessarar síðu hefur búið til aragrúa af verkefnum og gefur það allt inni á þessari síðu. Hann notar nánast undantekningalaust Google verkfærin, en það hentar auðvitað vel þar sem flestir skólar amk hér á landi nota þann pakka.

Góð grein til að byrja á: https://ditchthattextbook.com/the-hyperdocs-toolbox-14-engaging-example-activities/

Tvær síður sem er vel þess virði að minnast á:

Learning for justice. Síða sem leggur mikla áherslu á að nám stuðli að félagslegu réttlæti. Þarna inni má finna mikið að verkefnum og greinum ef manni langar að vinna verkefni með nemendum sem snýr að samfélaginu og félagslegu réttlæti (social justice education).

Skólaþræðir. Vefur sem Samtök áhugafólks um skólaþróun halda úti. Þar má finna mjög gott safn af greinum um skólaþróun hér á Íslandi ásamt spennandi pistlum um áhugavert skólastarf. Mjög oft sem koma inn vandaðar og góðar greinar þarna inn!