loader image
Hvernig nemandi er ég? Hvernig nemandi vil ég vera? ✏️

Í þessari færslu langar mig að fjalla um verkefni sem við byrjuðum þetta skólaár á. Verkefnið er byggt á gömlum grunni frá Fanneyju Snorradóttur og Ingunni Björgu Arnardóttur, en við Fanney römmuðum verkefnið nýlega inn svo það rími við áherslur leiðsagnarnáms, eins og námsmarkmið, viðmið um árangur og sýnidæmi. Verkefnið heitir Hvernig nemandi er ég – hvernig nemandi vil ég vera?

Kjarninn í verkefninu er að nemendur velti því fyrir sér hvað hjálpi þeim helst við að læra og ná árangri í námi. Markmiðið var að fá nemendur til tína saman 10 atriði og miðla þeim áfram til annarra, svo aðrir hafi gagn af, í formi upplýsingaplakats eða rafræns infographs (nánar um þetta síðar í færslunni).

Eins og flestum er ljóst þá eru auðvitað margir ólíkir þættir sem skipta þar máli, sem er tilvalið að ræða með nemendum í upphafi verkefnisins:


*Það er rétt að taka fram að sá listi sem ég nefni hér fyrir neðan er engan veginn tæmandi. Og þættirnir sem eru undir hverjum ‘flokki’ geta auðvitað átt heima í öðrum flokkum.

Dæmi um þætti sem snúa að námsumhverfinu

  • Læri ég betur í hljóði eða finnst mér betra að hafa tónlist í eyrunum (þá er líka gott að spyrja hvernig tónlist er best að hafa?).
  • Sumum finnst betra að læra einir á meðan aðrir koma engu í verk án þess að hafa námsfélaga með sér.
  • Algengt er að einstaklingur vilji byrja á að taka til hjá sér (hafa hreint í kringum sig) áður en byrjað er að læra.
  • Læri ég betur heima hjá mér, í skólanum eða annarsstaðar?
  • Fjarlægja truflun. Þessi þáttur höfðaði til nemenda, þ.e.a.s að fjarlægja truflunina sem fylgir símanum.

Dæmi um þætti sem snúa að námstækni einstaklingsins.

  • 🍅Pomodoro aðferðin. Hentar mér að vinna í 20 mínútur – taka pásu í 10 mín – vinna aftur í 20 mínútur og pásu. Þetta er endurtekið nokkrum sinnum. Mæli með að áhugasamir lesi sig til um þessa aðferð.
  • Glósutækni. Það eru til margar glósuaðferðir. Sumir skrifa niður allt sem þeir lesa eða eru að hlusta á eða bara stikkorð/hugmyndir/spurningar. Öðrum finnst betra að ræða við aðra um það sem er verið að ræða. Aðrir vilja hreinlega hafa myndir og teikningar af því sem þeir eru að glíma við.
  • Flashcards og hugarkort.
  • Hólfa niður tímann sinn.
  • Upprifjun á því sem maður hefur lært.

Dæmi um aðra þætti sem eru skilyrði eða undirstöður fyrir námi.

  • Hugarfar. Þessi þáttur býður upp á góða umræðu um vaxtar hugarfar eða fastmótað hugarfar. Líklega tengja flestir við fastmótaðar hugsanir (t.d ég get þetta ekki; ég er ekki góð/ur í þessu o.sfrv.)
  • Stuðningur.
  • Hvatning.
  • Næring. Fyrir flestum skiptir miklu máli að vera vel nærð/ur eða eiga góðan mat til að geta gripið í.
  • Hvíld.

Vinna nemenda hófst á því að búa til lista yfir þau atriði sem þau töldu að skiptu sig mestu máli til að ná árangri í sínu námi og vildu miðla til annarra. Sumir höfðu mjög skýra mynd af því hverskonar námsmenn þau eru en aðrir sem áttu erfiðara með þetta verkefni leituðu á netinu. Ýmislegt efni er til bæði á Pinterest, Google og YouTube með því að leita study techniques, study hax, tips for learning o.sfrv.

Þau höfðu val um að miðla sinni þekkingu með því að búa til plakat eða Canva infograph (forrit sem mér finnst snilld og hvet aðra til að skoða!). Á Canva er til hellingur af sniðmátum sem má nota og með auðveldum hætti búa til vel útlítandi upplýsingaplaköt.


Námsmarkmið og viðmið um árangur

Eins og þið munuð sjá í hlekknum á verkefnið hér neðst á síðunni þá eru bæði skýr námsmarkmið og viðmið um árangur. Við Fanney erum bæði mjög mikið á leiðsagnarnáms lestinni og höfum verið að skerpa á því að hafa bæði námsmarkmiðin og viðmiðin um árangur mjög skýr.

Í námsmarkmiðunum útlistum við nákvæmlega hver markmiðin með verkefninu eru og við ákváðum að hafa þau þrjú, skýr og einföld:

  • Hugleiða hverskonar námsmenn nemendur eru
  • Hanna veggspjald eða rafrænt infograph
  • Kynna verkefnið fyrir hópnum

Viðmiðin um árangur er síðan aðeins lengri listi þar sem við tökum fram hvað sé æskilegt að komi fram í verkefni sem teljist fullnægjandi.


Nemendur okkar munu kynna þetta verkefni í vikunni og hefur vinnan farið fram úr björtustu vonum. Við vorum sammála um að það er virkilega gott að byrja á svona verkefni með nemendum, bæði til þess að hjálpa þeim að ná fókus og setja sig í stellingar fyrir skólaárið, en líka að veita þeim bjargir til þess að hjálpa þeim að læra.

Hlekkur á verkefnið